Miðvikudagur, 12. ágúst 2009
Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað, hvað verður um mig ef það sem ég er er bölvað og bannað.
Oft áður hef ég tuðað og sveijað yfir bloggurum sem hefja færslurnar sínar á því að tilkynna að þeir séu andlausir, hafa ekkert að segja eða eitthvað í þá áttina. Þess vegna ætla ég að skrifa heila færslu um mitt andleysi sem hefur ríkt undanfarið.
Frá því að ég man fyrst eftir mér hef ég átt í stanslausum samræðum. Þessar samræður hafa bæði verið einhliða, tvíhliða oft á tíðum jafnvel marghliða. Samræðurnar hafa átt sér stað á milli mín og annars fólks eða jafnvel bara milli mín og mín. Enn í dag stend ég mig af því að vera að tala upphátt við sjálfa mig á meðan ég er út að ganga eða ein heima. Þegar ég man að það sæmir ekki ágætlega heilu fólki að spjalla við sjálfan sig svona útí loftið á almanna færi færast samræðurnar inn á við og ég hef innrispjall um lífsins gagn og nauðsynjar. Ég dett líka í algjör dramaköst og óhugnanlega oft byrja ég að semja sögur í hausnum sem eru í stíl við verstu ástarsögur oft á tíðum.
(Dæmi: Þegar unga stúlkan gekk fram hjá ljósastaurnum tók hún eftir lausum hundi sem augljóslega var týndur þar sem hann var voðalega aumur að sjá. Hröðum en kynþokkafullum skrefum gekk hún til hans og beygði sig niður til að kíkja á rauðu hálsólina hans. Fölbleika sjalið sem hún hafði smeykt yfir axlirnar til að sólbrenna ekki í ágúst sólinni rann til svo sást í fagur mótaðar axlirnar. Hún var dáleidd af brúnum augum hundsins svo hún fann varla fyrir því þegar hann lagði sterklegar hendurnar á axlir hennar og sagði "hæ". (þessar línur hoppuðu í hausinn minn á leið heim úr skólanum í vetur, innblásturinn var gömul kelsa sem var úti að labba í kellingableikri kápu og mætti steratrölli með rottveiler hund í bandi, samskiptin voru enginn þeirra á milli og er ég nokkuð viss um að þau hafa ekki tekið eftir hvort öðru. Pínu geðveiki??) )
Svona hefur hausinn minn virkað síðan ég man eftir mér, en undanfarið hefur verið algjör þögn. Sama hvað ég hef reynt og rembast hefur verið algjör þögn. Kannski er ég að meðtaka allt sem hefur "skeð" undanfarna mánuði eða að undirbúa mig undir það sem framtíðin ætlar mér. Hvort sem það er, er hausinn að taka við sér og ég er að hrökkva í gang mér til mikillar ánægju og foreldra minna til mikillar mæðu.
Athugasemdir
Loksins, loksins ég skemmti mér sjaldan eins vel og þegar ég les bloggið þitt
var farin að sakna þess, allir hættir að blogga og hanga bara á facebook
Ég held reyndar að það sé bara hollt að tala við sjálfan sig, haltu því bara áfram.
mamma (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 16:22
Ég geri þetta líka.... oft velti ég því fyrir mér hvort ég hafi talað upphátt eða hvort ég hafi náð að halda öllum þessum samræðum innra með mér
Gott að vita að ég er ekki ein á báti.
Hrönn Sigurðardóttir, 13.8.2009 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.