Leitin

Hversu margar blogg-færslur ætli byrji einhvernvegin svona "er svo rosalega andlaus veit bara ekkert hvað ég á að skrifa" eða "hef ekkert að segja veit ekki hvað ég á að blogga um"? Góð ráð við báðum þessum vandamálum er bara að sleppa því að blogga þar til þú hefur eitthvað að segja. Mér leiðist alveg svakalega að lesa færslur sem byrja á þennan hátt og les oftast ekki lengra þar sem upphafið lofar ekki góðu. Ég hef oft fengið hugmynd að bloggi og ætlað mér að skrifa það niður þegar ég sest næst við tölvuna en þegar þangað er komið er allt farið, hausinn tómur engar hugmyndir. Sumum er þetta í blóði borið að geta bloggað skemmtilega texta eins og Guðríður Haraldsdóttir blaðakona sem hefur sett dulin sjarma yfir strætóferðir. Ég hef aldrei haft jafn mikinn áhuga á strætóferðum nokkurs, ekki einu sinni mínum eigin, fyrr en ég byrjaði að lesa bloggið hennar. Þannig texta langar mig að geta skrifað. Gert jafn hversdagslega hluti eins og strætóferðir áhugaverðar er bara snilld.

Ég hef alltaf ætlað mér að skrifa bók. Eina bók. Veit ekki ennþá um hvað hún á að vera en skáldsaga skal það vera og nafnið mitt á kápunni. Ég hef oft fengið hugmyndir að sögu, aðalpersónum, aukapersónum og upphafi, en aldrei enda. Oft á dag fæ ég líka hugmyndir að bloggfærslum, smásögum, ljóðum, viðtalsefni, umfjöllunarefni og fréttum. Oftar en ekki er ég búinn að semja textann í huganum. En eins og svo margt annað í þessum hraða heimi týnist það, verður að engu gleymist og hverfur í huga fullan af tannlækna tímum, innkaupalistum og símanúmerum. Ég hef oft velt því fyrir mér að ganga um með upptökutæki eða blokk og blýant og skrifa niður þessar hugmyndir svo ég geti þá unnið úr þessu seinna eða allavegana svo þetta týnist ekki alveg jafn hratt. Hef bara aldrei látiðWriterLady verða að því. Kannski ég geri það í sumar geri svona smá tilraun og athuga hvort hugmyndirnar mínar eru eitthvað til að tala um eða vinna meira úr. Þó það væri ekki nema mér til ánægju og yndisauka.

Frá því að ég var lítil hefur mig langað til að verða fréttakona. Þegar vinkonur mínar litu upp til og vildu verða alveg eins og einhver söng-eða leikkona horfði ég á fréttirnar og vildi verða eins og Elín Hirst, Edda, eða Jóhanna Vigdís. Svo fóru hormónin að flæða í allt of miklu magni um líkamann minn og ég fékk þá flugu í höfuðið að ég gæti bara ekki verið fréttakona. Fyrir því voru þrjár ástæður:     1) Ég var ekki nógu góð í stafsetningu og gæti því aldrei skrifað flottan texta. 2) Ég væri svo ljót að ég gæti aldrei unnið í sjónvarpi. 3) Ég hefði svo ljóta rödd að ég gæti ekki verið í útvarpi. Þá eru nú ekki margir miðlar eftir ef einhver. Þar af leiðandi vissi ég ekkert hvaða stefnu ég ætti að taka og ráfaði um stefnulaus að reyna að finna eitthvað sem ég gæti hugsað mér að vinna við. Vissulega hefur þessi leit mín leitt mig á marga staði og ég hef lært fullt af hlutum og kynnst fólki sem ég hefði aldrei hitt. En nú hef ég fundið stefnuna og hægt og rólega minka sveiflurnar og ég nálagst ákvörðunar stað. Mikið ofboðslega er það mikill léttir að vita hvað maður vill. Að leita aftur í barnssálina og spyrja hana "hvað var það sem við ætluðum að verða" hlusta á svarið og láta drauminn sem hefur alltaf átt heima í hjartanu mínu rætast. Ég ætla að verða fréttakona og rithöfundur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þjóðleikhúsið

Sæl

Góður texti sem þú skrifar. Og gott að þú ert búin að ákveða að skrifa meira. Mér datt strax í hug hvort þú vildir gerast meðlimur í leikfélaginu Hugleik. Við erum með höfundahóp sem er að skrifa einþáttunga og leikrit, styttri og lengri. Frábær æfing fyrir einhvern með rithöfund í maganum. Þetta er ekki mjög stór hópur en við lesum hvert fyrir annað. Ég tala af reynslu. Frábær hópur!. Sendu mér póst á julia@leikhusid.is ef þú vilt vita meira.

kv, Júlía

Þjóðleikhúsið, 5.6.2007 kl. 11:19

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þakka yndisleg orð í minn garð  og mig langar að segja þér að þú ert mjög vel skrifandi, mjög, mjög. Þú VERÐUR rithöfundur og fréttakona ... ég finn það sterkt á mér, eins og mamma myndi orða það. Innilega velkomin í hóp bloggvina minna sem ég elska voða heitt (flesta) og reyni að sinna eftir bestu getu.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.6.2007 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband